UM OKKUR

Burstagerðin 91 árs

Burstagerðin var stofnuð af Hróbjarti Árnasyni burstagerðarmeistara þann 1. maí 1930.

Þá hafði Hróbjartur dvalist í Danmörku og lært iðnina. Hann er eini Íslendingurinn sem fékk meistarabréf í þessari iðn og var því brautryðjandi á þessu sviði hér á landi. Hann kenndi meðal annars þeim mönnum sem síðan þjálfuðu blinda í burstagerð. Einnig voru margir sem kynntust burstahnýtingum í kvöldskóla K.F.U.M undir hans stjórn.

Fyrstu 7 árin var fyrirtækið í leiguhúsnæði á þrem mismunandi stöðum í Reykjavík, en árið 1937 fluttist Burstagerðin í eigið húsnæði að Laugavegi 96 og var þar allt til ársins 1966 eða í 30 ár.

Fyrstu árin var bursta- og penslagerð eingöngu handavinna og voru þá 12-14 manns við framleiðsluna. Einnig voru nær öll burstatré smíðuð á staðnum og íslenskt hrosshár keypt af bændum víðsvegar að og notað við framleiðslu á ýmsum burstum og penslum.

Árið 1942 var fyrsta burstagerðarvélin keypt til landsins frá Bandaríkjunum og var þar mikil breyting á framleiðsluhraða en samt voru ýmsir burstar og allir penslar framleiddir í handavinnu.

Hróbjartur andaðist árið 1953 en þá voru börn hans ung að árum og öll í skóla. Þá tók bróðir Hróbjarts, Sigurbergur Árnason við framkvæmdastjórn fyrirtækisins til ársins 1959. Árið 1965 var fyrirtækið gert að hlutafélagi og fljótlega upp úr því tekur Friðrik sonur Hróbjarts við rekstrinum. Í janúar 1979 eignaðist Friðrik og hans fjölskylda öll hlutbréfin.

Sjálfvirkar vélar koma síðan til sögunnar og húsnæðið á Laugaveginum orðið of lítið og óhentugt fyrir starfsemina. Þá er ráðist í að byggja iðnaðarhús við Auðbrekku í Kópavogi og þann 1. maí 1966 er fyrirtækið flutt þangað.

Árið 1980 er húsnæðið í Kópavoginum þegar orðið of lítið aðallega vegna innflutnings á ýmsum handverkfærum, búsáhöldum og vörum og tækjum til hreingerninga. Þá er ráðist í að byggja 1000 fermetra iðnaðarhús að Smiðsbúð 10, Garðabæ.

Á þessum tíma komu synir Friðriks til starfa í fyrirtækinu og árið 1988 var stofnað systurfyrirtækið Besta ehf. Besta sérhæfði sig í hreinlætisvörum s.s. sápum, þvottaefnum, gólfbónum og vélum og tækjum til iðnaðarnota. Einnig var stofnuð véladeild innan fyrirtækisins, ýmsar vélar fyrir snjóruðning og sópum á götum og flugvöllum urðu meðal þeirra vara sem nú voru boðnar til sölu. Véladeild fyrirtækisins varð fljótt þekkt meðal viðskiptavina okkar vegna afbragðs véla og þjónustu. Síðar eða árið 2003 var stofnað fyrirtæki utan um véladeildina, Aflvélar ehf, sem enn er í rekstri fjölskyldunnar.

Árið 1991 kaupir síðan Burstagerðin ehf Sápugerðina Frigg og flytur starfsemina að Lyngási, Garðabæ. Þar erum við aðeins í 3 ár er Sápugerðin er seld en Burstagerðin og Besta flytja aftur í Kópavoginn að Nýbýlaveg 18.

2003 er ráðist í þá stórframkvæmd að kaupa húsnæðið að Suðurlandsbraut 26, Reykjavík (Sigtún) húsið endurnýjað að stórum hluta og komum við okkur fyrir þar í hjarta Reykjavíkur.

Nú voru komnir aðrir tímar í viðskiptarekstri og hlutirnir gerast hratt. Árið 2005 fáum við tilboð í rekstur Besta ehf og er það þá selt, en við höldum áfram með rekstur Burstagerðarinnar ásamt félaginu Aflvélar.

Fyrirtækin fluttu í eigið húsnæði að Vesturhrauni 3, Garðabæ með stuttri viðkomu í Vesturvör, Kópavogi.

Á þessum merku tímamótum er eðlilegt að staldrað sé við og hugurinn látinn reika til baka. 80 ár er jú langur líftími fyrirtækis og ýmsir erfiðleikar urðu á veginum. Má þar nefna stríðsárin 1940-1945, skortur á aðföngum var erfiður og ótryggur og á eftirstríðsárunum tóku innflutningshöftin við allt til ársins 1955. Á þessum tíma þurfti að fá innflutningsleyfi frá Viðskiptaráði og síðar Viðskiptanefnd fyrir öllum hráefnum og voru synjanir daglegt brauð. Stundum var aðeins hægt að fá innflutningsleyfi frá löndum eins og Brasilíu eða Úrúgvæ og varð þá að leita að fyrirtækjum þar sem hugsanlega ættu einhver hráefni til burstagerðar og gat slík leit tekið langan tíma og oft lítill árangur. Einnig var í gangi Skömmtunarstofa ríkisins og þurfti að leita til hennar um leyfi fyrir ýmsum vörum. Þá má nefna lánsfjárkreppuna og síðan verðbólgufárið. Mikill tími hjá forráðamönnum fyrirtækja fór í biðtíma á bankastjórabiðstofum til að fá nægt rekstrarfé og selja vöruvíxla.

Það er samt enginn uppgjafartónn hjá forráðamönnum Burstagerðarinnar í dag og við munum halda ótrauðir áfram og viljum nota þetta tækifæri til að þakka okkar góðu og traustu viðskiptamönnum fyrir það traust sem þeir hafa sýnt fyrirtækinu í öll þessi ár.

Mikil breyting hefur orðið á sölumöguleikum á íslenskum iðnaðarvörum síðastliðin ár þar sem samkeppni frá Asíulöndum á ódýrum fjöldaframleiddum vörum er mikil. Í dag framleiðum við því meira af sérhæfðum burstum fyrir fiskiðnaðinn og annan iðnað en einnig framleiðum við bílakústa fyrir þvottaplönin, verksmiðjukústa, gólfkústa og þakkústa í háum gæðaflokki, einnig má nefna anddyrismotturnar “Durol” sem við framleiðum eftir máli hverju sinni og hafa notið mikilla vinsælda í mörg ár.

Garðabæ 30. apríl 2010
Friðrik Hróbjartsson.